Ágætu foreldrar.
Um leið og við bjóðum barnið og ykkur velkomin í leikskólann Stekkjarás viljum við gefa ykkur upplýsingarum ýmis atriði sem eru tengd starfsemi leikskólans og gott er fyrir foreldra að vita.
Fræðslusvið Hafnarfjarðar
Fræðslusvið Hafnarfjarðarbæjar annast fræðslumál bæjarins en undir þau heyra leikskólar, grunnskólar, tónlistarskóli, Námsflokkar Hafnarfjarðar - Miðstöð símenntunar og PMT-Foreldrafærni.
Fyrir fræðslumálunum fer fræðsluráð Hafnarfjarðar sem heldur fundi á 2ja vikna fresti yfir skólaárið.
Skrifstofa fræðslusviðs er Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar sem er til húsa að Strandgötu 31, sími 585 5800, bréfasími 585 5809. Netfang: skolaskr@hafnarfjordur.is. Fræðslustjóri er Magnús Baldursson sem jafnframt er sviðsstjóri fræðslusviðs Hafnarfjarðarbæjar.
Fyrir Hafnarfjarðarbæ er í gildi skólastefna sem tók gildi árið 2005. Hana má finna á netinu.
Meginmarkmið leikskólastarfs
Leikskólastarf á Íslandi er byggt á lögum um leikskóla og Aðalnámskrá leikskóla frá 2011. Aðalnámskrá leikskóla er fagleg stefnumörkun um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og lögum samkvæmt uppeldis og menntastofnun þar sem lítil börn læra og þroskast gegnum leik.
Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna en leikskólastarfið er viðbót við það uppeldi sem börnin fá á heimilum sínum.
Leikskólinn er fyrir öll börn, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, menningu og trú.
Leikskólinn okkar
Leikskólinn Stekkjarás var opnaður þann 08.09.2004. Leikskólinn er 8 deilda. Haustið 2007 var opnuð ungbarnadeild í skólanum auk þess sem lögð verður áhersla á aldursblöndun á öðrum deildum.Rannsóknir benda til að aldursblöndun í nemendahópum hefur örvandi áhrif á félagslegan þroska þeirra og gefur nemendum færi á fjölbreyttari félagslegri skynjun en í aldurshreinum hópum. Aldursblöndun ýtir undir forystuhæfileika eldri barna og eldri börnin skapa flóknari leikaðstöðu fyrir yngri sem örvar leik þeirra til þátttöku í hlutverkaleik.
Leikskólinn starfar eftir hugmyndafræði Reggio Emilia, þar sem börnin eru í brennidepli. Þá er átt við að við lítum á þau sem sjálfstæða og skapandi einstaklinga. Hlustað er á hugmyndir þeirra og vinnan er aðlöguð að hæfni og möguleikum þeirra.
Við segjum að þessi hugmyndafræði sé lífssýn. Sýn okkar á börnin og nám þeirra endurspeglast í starfi okkar.
Við teljum að það séu þrír kennarar: kennarinn, börnin og umhverfið. Því reynum við að gera umhverfið lokkandi eða námshvetjandi. Við reynum með hjálp barnanna að sjá möguleikana í hversdagsleikanum að uppgötva og rannsaka saman. Því eru einkunnarorð skólans:
„Hugmyndir barnsins, verkefni dagsins"
Að byrja í leikskóla
Mikilvægt er að góð samvinna takist í byrjun á milli foreldra og starfsfólks. Barnið þarf að fá góðan tíma til að kynnast deildinni sinni, umhverfinu, starfsfólkinu og barnahópnum.
Nauðsynlegt er að foreldri, annað eða bæði dvelji með barninu fyrstu dagana og kynnist þannig starfsemi leikskólans.
Með góðri aðlögun er lagður hornsteinn að öryggi og vellíðan barnsins og samstarfi heimilis og leikskóla.
Það er mikilvægt að góð samvinna takist milli foreldra og starfsmanna. Nauðsynlegt er fyrir starfsmenn að vita um líðan barnsins og venjur heima fyrir og einnig að foreldrar fái upplýsingar um hvernig dagurinn í leikskólanum gengur fyrir sig. Oft veldur lítið atvik, hvort sem er í leikskólanum eða heima því að hegðun barnsins er ekki söm og áður. Geta þá upplýsingar auðveldað foreldrum og starfsmönnum að vinna úr þeim málum.
Gagnkvæmur trúnaður milli foreldra og starfsfólks er forsenda þess að barninu líði vel í leikskólanum.
Allt starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu og þær upplýsingar sem starfsmaður fær um barnið eru trúnaðarmál. Þagnarskylda helst þó látið sé af starfi.
Daglegt líf í leikskóla
Daglegt líf í leikskóla markast af föstum athöfnum sem lúta að líkamlegum þörfum barna og heilsu. Á ákveðnum tímum matast börnin, þvo sér, hvíla sig og sofa. Dagskipulagið er sniðið að þörfum barna, þroska þeirra, aldri, samsetningu barnahópsins, dvalartíma og öðrum ytri skilyrðum.
Við skipulag leikskólastarfsins leitumst við eftir því að ná jafnvægi á milli mismunandi þátta s.s. á milli frjálsra og skipulagðra leikja, innileikja og útileikja, á milli félagslegra samskipta og einstaklingsverkefna og á milli hvíldar og þátttöku í leik og starfi. Skipulag og ákveðnar tímasetningar á daglegum atburðum gefa leikskólastarfinu festu og tryggja hæfilegan og samfelldan tíma til leikja og skapandi starfs.
Leikurinn
Leikur er námsleið barna. í gegnum leikinn lærir barnið að taka ákvarðanir og leysa úr vandamálum. Barn sem fær tækifæri til þess að vera í sjálfsprottnum leik verður sjálfrátt og sjálfstætt. Barn vinnur úr reynslu sinni í gegnum leik, það tjáir tilfinningar. Einnig öðlast börn félagsfærni í leik með öðrum börnum þar reynir á samskiptafærni og samvinnu.
Þegar unnið er með vinnuaðferðir Reggio er hægt að nálgast nám barnanna á ýmsa vegu, ein aðferð er að vera með stöðvavinnu. Unnið er í blönduðum námsstöðvum sem settar eru upp út frá hugmyndum og áhugasviði barnanna.
Unnið er með fljótandi dagskipulag vegna þess að tekið er tillit til þeirra þátta sem geta haft áhrif dag frá degi eins og áhugasvið barnanna. Ekki er stíft dagskipulag sem er fyrirfram ákveðið hvað skuli gert allan ársins hring.
Foreldrasamvinna – foreldraviðtöl
Í Reggio segja kennarar að ef maður vill kynnast börnunum þá verður maður líka að kynnast veröld þeirra. Það er einn af hornsteinum vinnuaðferða Reggio að vera með gott samstarf á milli heimils og skóla. Við vitum að foreldrar þekkja börnin sín best og viljum við vera samstarfsaðilar því að styðja við "hið hæfa barn".Mikilvægt er að byggja upp öflug tengsl sem einkennast af lýðræðislegum vinnubrögðum sem fela í sér að allir aðilar – börn, foreldrar og starfsfólk - hlusti hvert á annað með virðingu.
Sem dæmi um slík vinnubrögð þá var einkennistákn skólans valið í nefnd sem skipuð var nemendum, foreldrum og kennurum.Um tillögur nefndarinnar var síðan kosið í lokaðri kosningu og höfðu allir í skólasamfélaginu atkvæðisrétt þ.e. nemendur, foreldrar og starfsfólk.
Foreldrar eru alltaf velkomnir í leikskólann til þess að fylgjast með og taka þátt í því starfi sem hér fer fram.
Foreldraviðtöl eru að jafnaði einu sinni til tvisvar á skólaárinu en að sjálfsögðu er foreldrum velkomið að fá viðtal hvenær sem óskað er eftir.
Heimsóknir - Aðlögun
Á Stekkjarási höfum við valið að fyrsta heimsókn eigi sér stað á heimili barnsins þar sem kennararnir fá tækifæri til að sjá það í sínu daglega umhverfi og þar með kynnast heimi þess.Í þessari stuttu heimsókn afhendum við foreldrum möppu með ýmsum upplýsingum og tökum mynd af barninu.Þannig að þegar aðlögunin í leikskólanum hefst þá er komin upp mynd af barninu í hólfi þess.Gera má ráð fyrir u.þ.b. einni viku í aðlögun barnsins og munu kennarar og foreldrar í sameiningu leggja drög að aðlögunarferlinu.Mikilvægt er að hafa í huga að hvert barn er einstakt og engin aðlögun er eins.
Leikskólagjöldl
Leikskólagjöld eru innheimt með gíróseðli sem sendur er í heimabanka eða kreditkorti en þá verða foreldrar að hafa samband við sinn banka. Gjöldin eru greidd fyrirfram
Gagnkvæmur uppsagnarfrestur dvalarsamnings er einn mánuður og miðast við 1. hvers mánaðar.
Foreldrafélag
Í leikskólanum er starfandi foreldrafélag, og er það val foreldra að vera meðlimir í því.
Félagsgjald er ákveðið á aðalfundi félagsins og er innheimt með gíróseðli tvisvar á ári. Á aðalfundi eru einnig kosnir fulltrúar foreldra í stjórn félagsins sem fundar reglulega yfir vetrarmánuðina. Markmið foreldrafélagsins er að stuðla að velferð barna í leikskólanum og veita stuðning við leikskólann og starfsemi hans. Foreldrar borga félagsgjöld sem eru innheimt tvisvar á ári og eru þau notuð við að styrkja ýmis verkefni sem tengjast leikskólastarfinu. Þar má meðal annars nefna leiksýningar, rútuferðir, sveitaferðir, sumarhátíð, jólaball og annað sem uppá kemur hverju sinni.
Veikindi og fjarvistir
Gott er að fá upplýsingar um veikindi barnanna – hægt er að tilkynna veikindi í síma 5175920 og í gegnum Karellen.
Gátlistinn Heilsufar barna á leikskólaaldri er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra og fleiri aðila.
Hann leiðbeinir um hvenær veik börn eiga ekki að koma í leikskólann og hvernig staðið skal að sóttkví leikskólabarna. Vonast er til að gátlistinn svari spurningum foreldra og starfsmanna leikskóla.
Barn á ekki að koma í leikskólann ef:
- Barnið er með hita.
- Barnið er með kvef, hósta og að minnsta kosti eitt af eftirtöldum einkennum til viðbótar:, slappleika, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki og/eða niðurgang.
- Barnið er í sóttkví, einangrun eða beðið er niðurstöðu sýnatöku.
Veikindi leikskólabarna:
- Barn skal sótt í leikskólann ef heilsufar þess breytist; barnið fær hita yfir 38°C og flensulík einkenni.
- Leikskólabörn skulu að jafnaði vera hress og hitalaus í að minnsta kosti sólarhring, áður en þau koma aftur í leikskólann.
Um sóttkví leikskólabarna:
- Börn fara í sóttkví samkvæmt leiðbeiningum heilbrigðisstarfsfólks eða smitrakningarteymis ef þau hafa verið í tengslum við aðra, óháð aldri þeirra, sem greindir hafa verið með smit eða grun um smit.
- Börn sem ekki hafa þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem eru forsenda þess að hluti heimilisfólks geti verið í sóttkví, þarf allt heimilið, þ.m.t barnið, að fara í sóttkví eða þeir sem ekki eru í sóttkví að fara annað um leið og sóttkví kemur til.
- Lengd sóttkvíar er ákvörðuð af smitrakningateymi eða heilbrigðisstarfsfólki.
Leitið ráðgjafar hjá heilsugæslu,
- Ef vafi leikur á því hvort barnið ætti að fara í leikskólann.·
- Til að fá nánari upplýsingar um einkenni, eða lengd sóttkvíar
Astmalyf eru einu lyfin sem gefin eru í leikskólanum.
Skipulags- og námskeiðsdagar
Leikskólinn er lokaður a.m.k. fimm virka daga á hverju skólaári vegna skipulags- og námskeiðsdaga.Þessir dagar eru auglýstir á skóladagatali sem og á upplýsingatöflum deildanna.
Afmæli
Boðskort í afmælisveislur fara í hólf einungis ef öllum börnum deildarinnar er boðið annars fer boðið ekki fram í gegnum leikskólann.
Leikskólataskan
Leikskólinn er vinnustaður barnanna. Þar fást þau við ýmiskonar efnivið og geta því hæglega óhreinkað föt sín.
Þar sem börnin fara nær daglega út, þurfa fötin að vera í samræmi við veður hverju sinni. Merkt útiföt, skófatnaður og vettlingar skila sér betur til réttra eiganda. Nauðsynlegt er að hafa aukaföt í töskunni/hólfinu, ef eitthvað óhreinkast því er nauðsynlegt að hafa í leikskólatöskunni fatnað til skiptanna.
Munið að merkja fatnað barnanna velVel merkt föt skila sér betur til eigandans
Það sem þarf að vera í töskunni:
Nærbolur
Nærbuxur
Sokka/Sokkabuxur ( gammosíur)
Auka buxur
Auka peysa
Þykk peysa, ullar- eða flís
Þykkar buxur fyrir þá sem mæta í pilsum
Vettlingar
Ullarsokkar/Þykkir sokkar
Kuldagalli
Pollagalli
Stígvél/Kuldaskór
Dvalartími/Barngildi
Aldur Barna Barnagildi Fjöldi pr. Kennara að jafnaði
5 ára0,8 barngildi 10 börn
4 ára1,0 barngildi 8 börn
3 ára1,3 barngildi 6 börn
2 ára1,6 barngildi 5 börn
1 árs2,0 barngildi 4 börn
Ágætu foreldrar/forráðamenn
Með kærri kveðju og ósk um gott samstarf
Starfsfólk Stekkjarás