Sumarkveðja

11 Júl 2017

Nú er enn eitt skólaárið á enda og þegar horft er yfir öxl og árið rifjað upp, sjáum við að verkefnin hafa verið mörg og spennandi, ævintýri sköpuðust í leik, ný og spennandi tækifæri urðu til og lærdómurinn mikill.

Föt voru hönnuð, það var saumað, prjónað og ofið, leikurinn var þróaður bæði inni, úti í garði og í útinámi. Úti var oft drullumallað, leikið með vatn og eldur kveiktur þegar veður leyfði. Sumir gróðursettu grænmeti og ræktuðu blóm. Oft var málað, teiknað, leikið með spegla, segla, ljós og skugga. Mikið var unnið með jarðleir og oft var leikið og skapað úr endurnýtanlegum efnivið. Þetta er bara smá brot af verkefnum vetrarins en glöggt má sjá að verkefnin voru mjög fjölbreytt og aldrei voru tveir dagar eins.

Þegar við bjóðum upp á fjölbreytt tækifæri verður til ný þekking og nýjar hugmyndir spretta og ævintýri geta ræst hjá okkur öllum, bæði hjá börnum og starfsfólki.

Verum duguleg að lesa daglega og ræða saman í sumarfríinu.

Við kveðjum ykkur með bros á vör með óskir um góðar stundir þangað til við hittumst aftur eftir fríið.

Njótum.